Hvers virði er allt heimsins prjál ef þú ert ekki hér?

Hvers virði er allt heimsins prjál ef þú ert ekki hér?

 

Á þessum Páskadagsmorgni hljómar þessi laglína í höfðinu á mér!

Af hverju veit ég ekki, ég hef ekki heyrt þetta lag í óralangan tíma….

Kanski settist það að í höfðinu á mér vegna eigin hugrenninga um samskipti og samskiptaleysi við mína nánustu.

Ég hef verið í ákveðinni varnarstöðu tilfinningalega eftir óbærilega áfallahrinu sem skellti mér haustið 2014, þetta er uppgvötun sem ég var bara nýlega að gera, þrátt fyrir að hafa unnið vel úr þessari áfallahrinu með hjálp fagfólks og annara.

Einnig hjálpaði það mér að vera með fagþekkingu á sviði áfalla og menntuð í Hugrænni atferlismeðferð, jú allt sem við kunnum getum við nýtt fyrir okkur sjálf en það er líka þessi faglega þekking sem sem og að hafa starfað við að styrkja fólk sem er að nýtast mér til þess að sjá þennan varnarmekkanisma sem sjálfið mitt setti upp eftir óbærilegan sársauka.

Ég hef haldið mínum nánustu í ákveðinni fjarðlægð af ótta við að missa þau, af ótta við þann óbærilega sársauka sem ég hef upplifað í gegnum aðra sem misst hafa börnin sín.

Sjálfið mitt hefur alveg klárlega þurft á þessari fjarðlægð að halda þar sem á þessum tíma hefur verið yfirvofandi sú staðreynd að ég gæti misst eitt af mínum dýrmætu börnum.

Það er bæði sárt og gott að gera þessa uppgvötun , að sjá hvernig ég hef ekki leyft mér að elska mannin minn, börn og barnabarn af óttanum við að missa þau, hef ekki lagt mig fram við að skapa með þeim stundir eins og ég gerði fyrir þennan áfallatíma, því sjálfið mitt heillt og óbrotið elskar nærveruna af fjölskyldunni mest af öllu.

Ég er þakklát fyrir þessa ljúfsáru uppgvötun….

 

Ég veit það að án uppgvötvana um eigið sjálf og tilfinningar og ef við göngumst ekki við okkar upplifunum og tilfinningum getum við ekki breytt okkur á þann hátt sem við viljum breytast. Með því að vera sönn í eigin sjálfi getum við þroskast og orðið besta útgáfan af okkur.

 

Í dag fæ ég tækifæri til að treysta sérhverri stund og njóta þess að elska fólkið mitt.

Laglínan sem settist að í höfðinu á mér á Páskadagsmorgun er upphafið af því að taka niður varnarmekkanisman og elska aftur fólkið mitt án þess að óttast að missa það.

Einn dag í einu, því allt heimsins prjál er einskinsvirði án ykkar.

 

Gleðilega páska

 

Kristín Snorradóttir

Advertisements

Kveikjum á kærleiksorkunni

Ég hef lengi trúað því að allt sem þú gerir færðu tvöfalt til baka. Þess vegna er gáfulegast að gera gott, maður vill jú ekki fá eitthvað slæmt til baka!

Með þessu er ég ekki að meina að þau þroskaverkefni sem lífið sendir okkur hætti að koma né myndi ég vilja það, því þroskaverkefnin mín hafa gert mig að mér.

(þroskaverkefni = erfiðleikar)

Fyrir mér eru þroskaverkefnin tækifæri til þess að vaxa sem manneskja.

Ég játa samt góðfúslega að stundum hefur mér fundist nóg um þroskaverkefni og hugsað með mér

” Þetta er orðið gott af þroska” en ég hef aldrei gefist upp.

Hvað hafa þessi þroskaverkefni gefið mér sem er svo dýrmætt?

Ég hef lært að mæta sjálfri mér í kærleika og auðmýkt, lært að dæma mig ekki vegna þess hvernig mér líður heldur samþykkja tilfinningar mínar hverjar svo sem þær eru.

Ég hef lært að elska fólkið mitt í verki með því að segja það og sýna það.

Ég hef lært að dæma ekki líf annara, engin hefur í raun hugmynd um líf annara og því ætti engin að setjast í dómarasætið.

Ég hef lært að hafa aðgát í nærveru sálar, því ég veit aldrei hvað aðrir eru að upplifa.

Ég hef lært að lífið er stutt og hver dagur gjöf, það er ekkert sjálfgefið að ég eða aðrir séu hér á morgun.

Ég hef lært að láta gott af mér leiða og uppskorið það ríkulega.

Með þessum litla pistli langar mig að kveikja á kærleiksorkunni og fá alla í lið með mér að gera heimin betri með því að láta gott af sér leiða.

Það eru margar leiðir til þess að gefa gott frá sér, eitt lítið bros getur verið ljós inn í tilveru einhvers.

Kærleikskveðja

Kristín Snorradóttir

 

Nokkur orð um ótta og traust

Ég var barn sem ólst upp í umhverfi þar sem fjölskyldusjúkdómurinn alkahólismi var við völd. Eins og flest önnur börn sem alast upp við þær aðstæður var óttin alltaf með í för.

Lengi lét ég óttan stýra lífi mínu. Ég sleppti því að fara og gera ýmislegt af því óttin bankaði uppá. Ég var með meltingatruflanir og önnur óþægindi af því óttinn var við völd.

Óttin kom við sögu á hverjum degi og við flest allar aðstæður í lífi mínu hér áður fyrr, ég hitti hann sem barn og hann varð órjúfanlegur partur af mér fram á fullorðinsár.

Ég óttaðist allt mögulegt t.d fólk, ofbeldi, álit annara, myrkrið, pöddur, áfengi, eiturlyf, ég gat fundið óttan í nánast öllu. Ég óttaðist mjög mikið að eiga ekki nóg og skorta peninga.

Óttinn skerti lífsgæði mín verulega, lengi vel óttaðist ég nýjar aðstæður, nýtt fólk og af þeim sökum einangraði ég mig mikið með því að búa til ástæður fyrir því að geta ekki tekið þátt í því sem mér var boðið að taka þátt í. Ég óttaðist lengi vel að ferðast til útlanda því ég var flughrædd og hrædd við fólk. Ég hætti að keyra í mörg ár eftir árekstur svo einhver dæmi séu nefnd.

Óttin olli því að ég var alltaf slæm í maga( þróaði með mér ristilkrampa sem barn) ég upplifði streitueinkenni og svaf illa enda svo hrædd við myrkrið.

Ég treysti engum og traust var ekki til á nokkurn hátt því þegar óttin er alsráðandi er ekki pláss fyrir traust.

Í dag er traustið alsráðandi og óttin víðsfjarri, hann kíkir stundum á mig en einungis í mjög stutta stund. Í dag kann ég að reka óttan á brott og dvelja í trausti. Þvílík lífsgæði.

Ég vann með mig með hjálp annara bæði fagaðila og sjálfshjálparsamtaka fyrir aðstandendur.  Í raun hóf ég þessa vinnu 13 ára gömul og hef unnið í mér síðan þá og mun vinna í mér út lífið. Mitt helsta takmark er að verða betri manneskja á morgun en í dag.

Í dag nýt ég lífsins, elska að ferðast, finn ekki fyrir flughræðslu. Ég veit fátt skemmtilegra en góðra vina hópur og finn einungis fyrir forvitni í nýjum aðstæðum. Ég hef tekist á við margar ógnvænlegar aðstæður í lífinu og þar hefur traustið á það góða ávallt hjálpað mér að komast í gegnum þær og nýta þær mér til þroska.

Akkúrat núna veit ég ekkert hvar eða hvort ég eigi heimili eftir 3 mánuði en ég veit að óttin hjálpar mér ekki svo ég nýt hvers dags og trúi því að til mín rati rétta leiguhúsnæðið.

Ég skora á alla að segja óttanum upp og fagna traustinu.

Lifum til fulls

Kristín Snorradóttir

Stolt móðir

Rétt í þessu fylltist ég stolti yfir því hvað hún dóttir mín er flottur einstaklingur.

Ég hrósaði henni fyrir vel unnið verk og benti henni á að hún byggji yfir einstökum hæfileikum. Hvatti hana til að halda fast í þessa eiginleika sína.

Hún þakkaði fyrir hrósið og sýndi af sér auðmýkt þar sem hún eignaði skemmtilegri vinnu og góðum vinnufélögum hlutdeild í hrósinu. Það gerði mig enn stoltari af henni að hún skuli vera svo flottur fagmaður.  Ég naut þess að finna fyrir þessari tilfinningu stoltinu og öllum þeim kærleika sem henni fylgir.

Mitt í þessu öllu fann ég til sjálfs míns, ég var einn af hennar helstu mótunaraðilum. Ég hafði gert vel og fann til stolts yfir því að hafa náð að skila þessu til barnsins míns.

Eitt andartak hvarflaði hugurinn til þess tíma þegar ég var lítil stúlka og kenningar voru uppi um það að ekki ætti að hrósa börnum of mikið því þá yrðu þau hrokafull og montin og á þeim tíma þótti algerlega út í hött að vera ánægður með sig eða stæra sig af góðum verkum.

þessar gömlu kenningar hafa allar verið afsannaðar og mikilvægi þess að nota hrós rétt við uppeldi er löngu sannað og kennt á uppeldisnámskeiðum.

Það er líka vitað í dag að  partur af heilbrigðri sjálfsmynd er að sjá eigið ágæti sem og að sjá hvar maður getur bætt sig.

Hrósum börnunum okkar fyrir vel unnin verk, sama hvað þau eru gömul ( mín er 23 ára).

Bendum börnunum okkar á þá hæfileika sem við sjáum hjá þeim og sínum þeim að við kunnum að meta eigin hæfileika.

Með því að leita eftir styrkleikum frekar en veikleikum þá erum við að eiga uppbyggileg samskipti og þar með að leggja okkar af mörkum til þess að efla sjálfsmynd þess einstaklings sem við eigum samskipti við.

verum óhrædd við að skína skært.

Kristín Snorradóttir

 

Hamingja er hugarástand

Smá hugleiðing um hamingjuna.

Oft heyri ég fólk tala um að það verði hamingjusamt þegar það eignast þetta eða klárar eitthvað eða þegar makinn er eins og það vill eða börnin útskrifast eða….

Einu sinni stóð ég í þessari meiningu sjálf!

Gerði þannig óraunhæfar kröfur á hluti, atburði og fólk og fann óhamingjuna en ekki hamingjuna.

Svo kviknaði ljós í hjartanu og ég fattaði að hamingjan kom innan frá!

Hamingjan bjó í hjarta mér, það eina sem ég þurfti að gera var að leyfa mér að vera hamingjusöm, óháð því hvaða hluti ég átti, óháð þeim verkefnum sem ég var að takast á við og óháð öðru fólki 🙂

Æfingar til þess að hjálpa sér að auka  við hamingjuna er að segja upphátt:

” ég leyfi mér að vera hamingjusöm/samur”

Er að skrifa á postersmiða:

Ég má vera hamingjusöm/samur  ( Sterkast með rauðum penna )

Þvílíkt frelsi sem það er að velja hamingjuna

Kristín Snorradóttir

Forvarnargildi sterkrar sjálfsmyndar.

þessi á alltaf erindi

sterk-saman

Heilbrigð sjálfsmynd er sterkasta vopn hvers einstaklings til þess að takast á við þær áskoranir sem lífið býður upp á.

Börn með sterka sjálfsmynd:

Börnum sem líður vel í eigin skinni eiga auðveldara með að standast neikvæðan hópþrýsting brosa oftar og njóta lífsins. Þessi börn eru bjartsýn og hugsa í lausnum og hafa gaman af að leysa úr þeim verkefnum sem fyrir þau eru lögð. Þau treysta umhverfi sínu og segja frá þegar eitthvað sem þeim finnst óþæginlegt gerist.

Börn með brotna sjálfsmynd:

Aftur á móti er algengt að börn með veika sjálfsmynd þrói með sér kvíða og reiðitilfinningar. Börn sem hafa veika sjálfsmynd finnst þau oft vera lítils virði og og að þau geti ekki gert neitt rétt sem verður þess valdandi að þau verða döpur og einangra sig. Þau segja gjarnan “ég get ekki” þegar þeim eru rétt verkefni. Það er auðveldara að misbjóða þeim eða fá þau…

View original post 114 more words

Feitan og ljótan.

Hver þekkir ekki feituna og ljótuna?

Ég þekki þessar systur af eigin raun og hef þekkt þær alltof lengi!

Í fjölda ára hef ég unnið að því að útrýma þessum systrum úr lífi mínu og í dag hitti ég þær sem betur fer mjög sjaldan 😉

Ég hitti þær á áðan, þess vegna ákvað ég að skrifa aðeins um þær því það er algengt að fólk hitti þær í kringum jólin…. Þið vitið þegar mikið er um mannamót og allir vilja vera sem fallegastir.

Hverjar eru þær systur feitan og ljótan og hvaðan koma þær og hver er tilgangur þeirra?

Systurnar feitan og ljótan eru ranghugmyndir sem eiga pláss í höfðinu á okkur, litlar raddir sem segja okkur að við séum feit og ljót.

Þær segja okkur það sama hversu falleg og vel vaxin við erum, ótrúlega góðar að ljúga af okkur !

Systurnar feitan og ljótan koma gjarnan til okkar vegna þess að við mátum okkur við einhverjar órunhæfar hugmyndir um líkamsvöxt og útlit. Margar ytri aðstæður geta fært okkur þær systur og ef sjálfið okkar er brotið eða lítið þá nær það í feituna og ljótuna.

Tilgangur feitunar og ljótunnar er að brjóta okkur niður, fylla okkur af skömm á eigin útliti og oft tekst þeim að þróa kvíða, þunglyndi, átröskun, sjálfsskaða og fleira sjúklegt ástand.

Ekki svo spennandi félagsskapur ef við hugsum það aðeins….

Ég sagði ykkur í upphafi frá því að ég kannast við þær en hitti þær sem betur fer afar sjaldan í dag og þannig hefur það verið í nokkuð mörg ár, heppna ég J

Stundum hugsa ég um ungu stelpuna mig sem var alltaf feit og ljót og skoða svo myndir af henni og sé hvað hún var falleg og óttalega mjó en ranghugmyndir systrana fylgdu sjálfinu sem var brotið og því að hún gat ekki mátað sig við heim tískunnar, þar sem módelin voru fullkomin.

En hvernig fór ég að því að hrekja þær burtu?

Með því að læra aðferðir til að styrkja eigið sjálf og þannig læra að elska mig.

Þessar aðferðir og miklu fleiri sem ég hef lært í námi og á farsælum ráðgjafaferli nota ég til að hjálpa öðru fólki til að útrýma þeim úr sínu lífi. Bæði með einkaviðtölum og sjálfstyrkingarnámskeiðum.

Það er eitt af því besta við starfið mitt að sjá fólk vaxa og losna við þessar systur sem fylla hausin af ranghugmyndum. Fólk á öllum aldri getur þurft aðstoð við að losa sig við þessar systur. Styrkurinn felst í því að sækja sér hjálpina.

þetta snýst nefnilega ekki um kílóafjölda eða útlit… nei…. Þetta snýst um sátt í eigin skinni og útgeislun.

Feitan og ljótan stoppuðu hjá mér í ca 5 mín í morgun og reyndu að selja mér hugmyndina um að ég væri ekki verðug en ég benti þeim á að ég elskaði mín aukakíló og að ég væri miklu fallegri eftir að ég hætti að reykja svo taldi ég upp fleiri sigra og þær hypjuðu sig burt. Það er til dæmis ein leið til að hrekja þær burtu.

Veldu sátt og útgeislun

Kærleikur

Kristín Snorradóttir